Sýningarmót á San Marino

Ákveðið hefur verið að halda sýningarmót í San Marino í mars í tengslum við Smáþjóðarleikana sem fram fara þar í apríl.

Mótið er liður í því að koma keilu inn á Smáþjóðarleikana í framtíðinni.
Hverju landi sem tekur þátt í Smáþjóðarleikunum er boðið að senda fjóra keppendur á mótið, tvo karla og tvær konur.  KLÍ hefur ákveðið hefur verið að þekkjast boðið. Keppt verður um eitt sæti kvenna og karla og svo munu landsliðsþjálfarar velja í hitt sætið. Sett hefur verið upp mótaröð fyrir þá sem eru í Afrekshópum karla og kvenna og munu sigurvegarar þessarar mótaraðar vinna sér inn sæti á umræddu  móti.

Fyrsta mótið í mótaröðinni fór fram í gær. Spilaðir voru 6 leikir í 39″ feta olíuburði, „Elite Iceland“ sem búinn var til sérstaklega fyrir mótið af Marios Nicolaides sem situr í tækninefnd Evrópska keilusambandsins og hefur séð um tæknimál á mótum á vegum ETBF.
Sigurvegarar þessa fyrsta móts voru þau Bjarni Páll Jakobsson og Dagný Edda Þórisdóttir. Bjarni spilaði 1203 eða rétt um 200 í meðaltal en Dagný 1140 sem gera 190 í meðaltal.

Næsta mót í mótaröðinni er Íslandsmótið í tvímenning en þar mun forkeppni og milliriðill gilda sem eitt mót í þessari mótaröð.

Forkeppnin fyrir AMF 2017 – 1. umferð

Dagana 16. til 20. nóvember verður fyrsta umferðin í AMF forkeppninni haldin í Egilahöll. Athugið að breytt fyrirkomulag er á keppninni í ár. Boðið er sem fyrr upp á tvo riðla í forkeppni 1. umferðar og verða svo milliriðinn og úrslit á sunnudeginum 20. nóvember. Fyrri riðillinn verður miðvikudaginn 16. nóvember kl. 19:00 og sá seinni laugardaginn 19. nóvember kl. 10:00

Athugið breytt fyrirkomulag

Leikin er 4 leikja sería, leikmenn færast um sett milli hvers leiks. Spila má í báðum riðlum og gildir þá betri serían til milliriðils. Í milliriðil komast 8 bestu seríurnar og taka keilarar með sér 50% af bestu seríu inn í milliriðil. Þar er leikin önnur 4 leikja sería, leikmenn færast um sett milli hvers leiks. Efstu þrír komast svo í úrslit þar sem keppt er í Step Ladder 3 – 2 – 1 og þarf einungis að vinna einn leik til að sigra viðureign. Milliriðill og úrslit fara fram sunnudaginn 20. nóvember kl. 09:00 – Peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin í boði.

Stig til AMF eru sem fyrr þessi:

  1. sæti 12 stig
  2. sæti 10 stig
  3. sæti   8 stig
  4. sæti   7 stig
  5. sæti   6 stig
  6. sæti   5 stig
  7. sæti   4 stig
  8. sæti   3 stig
  9. sæti   2 stig
  10. sæti   1 stig

Athugið að 9. og 10. bestu seríurnar úr forkeppni fá stig til AMF. Sama fyrirkomulag verður haft á í 3. umferð AMF forkeppninnar sem er áætluð að verði í maí á næsta ári. 2. umfeðrin sem jafnframt er RIG mótið verður einnig með öðru sniði, kynnt nánar síðar.

Olíuburður í 1. og 3. umferð AMF forkeppninnar verður Kegel Challenge Series – ABBEY ROAD – 3540 (50 uL)

Skráning fer fram hér á vefnum.

Skráningu í fyrri riðilinn líkur þriðjudaginn 15. nóvember kl. 21

Skráningu í seinni riðilinn líkur föstudaginn 18. nóvember kl. 21

 

Athugið að keiludeil ÍR áskilur sér rétt til að fella niður mótið fáist ekki næg þátttaka.

 

Tékkneskur og sænskur sigur

Keppni er nú lokið á ECC í Olomouc í Tékklandi. Gullverðlaunin fóru til Tékklands og Svíþjóðar.

Það voru Casja Wegner frá Sviþjóð og Maria Bulanova frá Rússlandi sem kepptu til úrslita hjá konunum.  Úr varð spennandi viðureign. Maria vann fyrsta leikinn 237 – 214 en Casja svaraði í næsta leik 247 – 217. Þær þurftu því að spila úrslitaleik sem varð æsispennandi. Það var Casja sem sigraði þann leik 219 – 217 og er því ECC meistari 2016. Bronsverðlaun fengu svo Nicole Sanders frá Hollandi og Nadine Greissler frá Þýskalandi.

Í karlaflokki spiluðu saman heimamaðurinn Jaroslav Lorenc og Svíinn James Gruffman. Þessir tveir höfðu verið hæstir allt mótið og því vel að því komnir að spila til úrslita. Leikar fóru þannig að Jaroslav vann í tveimur leikjum, 244 – 223 í fyrsta og 247 – 236 í öðrum og því samtals 2 – 0. Í þriðja sæti urðu svo Antonio Fiorentino frá Ítalíu og Hadley Morgan frá Englandi.

Arnar endaði í 8. sæti

Arnar Davíð Jónsson úr KFR hefur lokið keppni á ECC, Evrópumóti landsmeistara, í Olomouc. Arnar endaði í 8. sæti.

Arnar var í 8. sæti áður en keppni hófst í dag og þrátt fyrir góða spilamennsku tókst honum ekki að spila sig upp um sæti. Arnar spilaði 912 í 4 leikjum eða 228 í meðaltal.
Það er ekki hægt að segja annað en að Arnar hafi átt frábært mót. Hann spilaði í heildina á 225.11 í meðaltal og það er klárt að þetta fer í reynslubankann enda Arnar ungur og á mikla framtíð fyrir sér.

„Í heildina er ég sáttur við frammistöðuna. Ég kom inn í 8 manna úrslitin í erfiðri stöðu sem sést best á því að þó ég spili vel í dag hefur það ekkert að segja. Auðvitað er alltaf hægt að finna hluti sem hefðu mátt klára betur en 8. sætið er staðreynd og er ég nokkuð sáttur við það“ sagði Arnar eftir að hafa lokið keppni í dag.

Í undanúrslitum leika Jaroslav Lorenc frá Tékklandi, James Gruffman frá Svíþjóð, Antonio Fiorentino frá Ítalíu og Hadley Morgan frá Englandi.
 

Arnar í 8 manna úrslit á ECC

Arnar Davíð Jónsson úr KFR er kominn í 8 manna úrslit á ECC, Evrópumóti landsmeistara sem haldið er í Olomouc í Tékklandi 

 Arnar byrjaði daginn illa, öfugt við hina keppnisdagana þar sem hann hefur spilað betur fyrri helminginn. Fyrir daginn í dag var Arnar í 6. sæti en eftir fyrri 4 leikina í dag var hann dottinn niður í 11. sæti. Seinni fjórir leikirnir voru hins vegar góðir og fyrir síðasta leik stóð keppni um 8 sætið á milli Arnars, Glenn Morten Pedersen frá Noregi og Jesper Agerbo frá Danmörku.  Allir spiluðu þeir vel í síðasta leik en að lokum var það Glenn Morten sem sat eftir, 4 stigum á eftir Arnari sem tók 8. sætið.
Nú er framundan keppni í 8 manna úrslitum en þar eru leiknir 4 leikir og svo halda 4 efstu áfram í undanúrslit.

Sjá heimasíðu mótsins

Sjá úrslitasíðu mótins

Tveir 300 leikir á EM í dag

Í dag voru leiknir tveir 300 leikir á EM í Olomouc. 

 Fyrst var það Glenn Robson frá Wales sem spilaði 300 en það gerði hann í leik 5.  Það var svo Catalin Gheorghe frá Rúneníu sem spilaði seinni leikinn en það gerði hann í leik 7.  Frábær árangur hjá þeim báðum og þess má geta að þeir eru báðir komnir áfram í 16 manna úrslit, eru þó ekki fyrir ofan okkar mann, Arnar Davíð. Catalin er í 12. sæti og Glenn er í 15. sæti.

Arnar flaug inn í 16 manna úrslit

Arnar Davíð lék í dag seinni 8 leikina í forkeppni EM í Olomouc í Tékklandi. Arnar spilaði mjög vel og tryggði sig inn í 16 manna úrslitin. 

Arnar, sem spilaði 1801 í gær bætti um betur í dag og spilaði 1882 eða 3683 samtals. Þetta skilaði honum 6. sæti inn í 16 manna úrslit.
Arnar byrjaði daginn frábærlega, spilaði 268, 268 og 245 í fyrstu þremur leikjunum. Heldur dalaði spilamennskan í næstu þremur leikjum en þeir voru 213, 192 og 205. Arnar fann línuna aftur í síðustu tveimur leikjunum sem voru 237 og 254. Frábær spilamennska og er hann með 230,2 í meðaltal.

Arnar á þó enn ýmislegt inni og hann er staðráðinn í að sýna það. Á morgun kl. 11:00 hefst keppni í 16 manna úrslitum og eru leiknir 8 leikir. Eftir það verður skorið niður í 8 keppendur sem halda áfram í undanúrslit.

Það er heimamaðurinn Jaroslav Lorenc sem er efstur með 242,9 í meðaltal, næstu kemur James Gruffman frá Svíþjóð með 241,9 og þriðji er Valentyn Kucherencko frá Úkraínu með 234,2   Arnar Davíð er 64 stigum frá þriðja sætinu.

Sjá stöðu hérna.