1. grein
Aðeins íslenskir ríkisborgarar geta sett Íslandsmet.
2. grein
Íslandsmet verða aðeins sett í A- og B-mótum.
a) Mótshaldari skal strax að loknum leik eða móti taka kúluna/kúlurnar til varðveislu og koma henni/þeim til tækninefndar sem lætur athuga hvort hún/þær uppfylli reglur FIQ/WTBA.
b) Mótshaldari/dómari skal fylla út eyðublað KLÍ um skráningu mets.
Eyðublaðið ásamt skorblaði/glæru verður að berast KLÍ.
3. grein
Met er hægt að setja í eftirfarandi flokkum:
a) Einstaklingar: Allt að 9 leikja röð karla og kvenna
b) Tvímenningur: Allt að 9 leikja röð karla, kvenna og blönduðum
c) Parakeppni: Allt að 6 leikja röð
d) Liðakeppni karla og kvenna:
deildarlið: Allt að 3 leikja röð 4ra manna lið
deildarlið: Allt að 5 leikja röð 3ja manna lið
félagslið: Allt að 3 leikja röð 5 manna liða
Íslandsmet para verður aðeins sett í sérstökum paramótum þar sem öll pörin samanstanda af karli og konu.
4. grein
Met geta verið sett í öllum flokkum unglinga 18 ára og yngri, samanber Reglugerð um Íslandsmót unglinga, í eftirfarandi leikjum. Miða skal við afmælisár.
a) Einstaklingar Allt að 9 leikja röð pilta og stúlkna.
b) Liðakeppni Allt að 6 leikja röð 3ja manna liða.
5. grein
Met verða ekki viðurkennd nema leikið sé að minnsta kosti á tveim brautum, nema í 4. flokk í Meistarakeppni ungmenna og 3. og 4. flokk á Íslandsmóti unglinga. Met í 4ra leikja röð eða meira verða því aðeins viðurkennd að leikið sé á fjórum brautum eða fleiri.
6. grein
Íslandsmet í einum leik er hægt að setja hvar sem er í leikjaröð. Ekki skal skrá jöfnun meta nema að það sé hámarksskor. Þegar hámarksskori er náð verður annað hámarksskor sem á eftir kemur ekki skráð sem met heldur skráð sérstaklega sem jöfnun á meti.
7. grein
Met í leikjaröð er aðeins hægt að setja þannig að talið er frá fyrsta leik í lotu og lotan sé óslitin.
Þannig er t.d. hægt að setja einstaklingsmet í þriggja leikja röð í þriggja leikja seríu í liðakeppni, í þrem fyrstu leikjunum í 4ra leikja seríu í tvímenningi eða í þrem fyrstu leikjunum í
8 leikja undanúrslitum. Lota telst ekki slitin nema a.m.k. 30 mínútur séu á milli leikja.
8. grein
Met gildir þar til nýtt met er tilkynnt og viðurkennt af KLÍ. Nái fleiri en einn leikmaður meti í sama móti teljast þeir allir vera methafar. Sé met slegið í sama móti og met var sett í telst aðeins hæsta niðurstaða vera met.
Breytt á formannafundi 29. apríl 2009
Breytt á formannafundi 01.september 2015