Reglugerð KLÍ fyrir dómara

1. grein

Í öllum A- og B-mótum að undanskyldum deildar- og bikarkeppni liða skal vera dómari viðurkenndur af KLÍ. Á Íslandsmóti liða og Bikarkeppni liða skulu fyrirliðar liða sjá um dómgæslu.

2. grein

Fyrir hvert tímabil úthluta KLÍ félögum dómarskyldu í mótum á vegum KLÍ.

3. grein

 1. Dómari skal vera vel kunnugur almennum keppnisreglum IBF/ETBF og KLÍ, og þekkja vel reglur um fyrirkomulag móta sem hann er dómari í. Ef upp kemur deilumál á leikstað, skal dómari leysa úr því með hliðsjón af keppnisreglum.
 2. Dómari hefur vald til að úrskurða um öll atriði varðandi leikinn þótt reglurnar gefi ekki nánari skýringar á þeim.

4. grein

Ef leikmaður, forystumaður liðs eða aðstoðarmaður brýtur af sér í keppni skal dómari veita honum áminningu. Sé um alvarlegt eða ítrekað brot að ræða skal dómari vísa viðkomandi af leikmannasvæði.

Eftirtalin brot teljast brottrekstrarsök:

 • Leikmaður mætir til keppni undir áhrifum áfengis eða lyfja.
 • Leikmaður beitir leikmenn, áhorfendur, starfsfólk KLÍ eða starfsfólk keilusalanna líkamlegu eða andlegu ofbeldi.
 • Leikmaður verður uppvís af því að hafa vísvitandi rangt við.
 • Leikmaður lætur ekki segjast þrátt fyrir að dómari hafi áminnt hann tvívegis.
 • Leikmaður andmælir ítrekað úrskurði dómara.

5. grein

Dómarar skulu koma úr dómarahóp KLÍ. Hópurinn samanstendur af öllum dómurum sem hafa gild dómaraskírteini frá KLÍ. Hafi einhver gild dómararéttindi frá Evrópska keilusambandinu ETBF eða heimssambandinu International Bowling Federation skal viðkomandi fá útgefin viðurkennd dómararéttindi frá KLÍ. Almennt gildir dómaraskírteini í 3 ár frá því að viðkomandi sótti dómaranámskeið.

KLÍ raðar dómgæslu niður á félög í upphafi keppnistímabils. Skiptingin skal fara eftir fjölda liða í deildum. Dómara er ekki heimilt að keppa eða gegna öðrum störfum jafnframt því að hann sinni dómgæslu, undantekning frá þessu er Íslandsmót liða og Bikarkeppni liða.

Ef félag sinnir ekki dómgæslu, sem það á samkvæmt mótaskrá að annast, eða hefur verið tilkynnt um með minnst 14 sólarhringa fyrirvara, skal dómaranefnd KLÍ sekta félagið samkvæmt gjaldskrá KLÍ. Ef sekt er ekki greidd er KLÍ heimilt að setja félagið í keppnisbann.

Ef um refsivert brot er að ræða skal dómari fullvissa sig um að aganefnd viti af brotinu með því að hafa samband við formann eða aðra nefndarmenn aganefndar eins fljótt og auðið er að leik loknum, en ekki síðar en 48 stundum frá lokum leiks.

6. grein

Dómaranefnd

Ef leikmaður (-menn) telja dómara hafa dæmt rangt, eða komið ósæmilega fram gagnvart þeim þá má leggja fram skýrslu þar að lútandi sem dómaranefnd, skipuð af stjórn KLÍ, mun fjalla um.

Ef dómaranefndin sér ástæðu til má hún taka réttindin tímabundið af dómara og þá verður hann að skila inn dómaraskírteininu sínu og mæta aftur á dómaranámskeið til að öðlast réttindin aftur. Ef dómari er talinn vanhæfur sem slíkur má dómaranefndin taka af honum réttindin fyrir fullt og allt.

7. grein

Eftirlitsdómarar

KLÍ skal skipa eftirlitsdómara sem skulu fylgjast með að dómgæsla og framkvæmd móta sé í samræmi við lög og reglugerðir KLÍ. Þeir skulu einnig hafa umsjón með námskeiðahaldi fyrir dómara. Dómaranámskeið skal haldið fyrir upphaf keppnisárs og eins skal boðið uppá námskeið á miðju keppnisári ef næg þátttaka næst. Dómarar skulu viðhalda þekkingu sinn á reglum KLÍ og breytingu á þeim. Ef eftirlitsdómari er á staðnum þar sem mót stendur yfir og upp koma mál sem dómarinn ræður ekki við, þá er honum leyfilegt að grípa inn í og ráðleggja dómaranum.

8. grein

Áminningar í dómgæslu

Dómari skal veita viðvörun fyrir hæga spilamennsku (regla 4.21).

Ef leikmaður fer ekki eftir þeim atriðum sem lýst er í 16. grein reglugerðar um keilumót, er hægt að telja það hæga spilamennsku. Leikmaður sem fer ekki eftir þessum atriðum skal áminntur af viðurkenndum starfsmanni mótsins á eftirfarandi hátt.

 1. Með hvítu spjaldi við fyrsta brot (engin refsing).
 2. Með gulu spjaldi við annað brot (engin refsing)
 3. Fyrir þriðja brot og hvert brot þar á eftir í leikjablokk skal sýna leikmanni rautt spjald og skal hann fá engar (0) keilur fyrir rammann.

Til að framfylgja reglu þessari skal dómari/mótsstjóri fylgjast með leikmanni/mönnum eða liði sem er meira en fjórum römmum á eftir þeim sem fyrstir eru í einstaklings og tvímenning, og meira en tvo ramma á eftir í þremenning og liða keppni.

Dómari skal veita áminningu fyrir eftirtalin brot:

 • að kvarta við starfsfólk keilusalanna yfir atriðum er varða íþróttina og aðstæður á brautum
 • gagnrýni á ákvarðanir mótsstjóra eða dómara
 • meiðandi ummæli um leikmenn, áhorfendur eða starfsfólk
 • notkun hverskyns dufts í gryfjunni, nema hvað nota má „svitapoka“
 • notkun hverskyns dufts undir keiluskó í keppni
 • óíþróttamannslega framkomu
 • tóbaksnotkun
 • önnur brot að mati dómara.

Dómari skal veita brottvísun fyrir eftirtalin brot:

 • við þriðju áminningu í leikjablokk
 • að hafa vísvitandi rangt við
 • endurtekna eða grófa óíþróttamannslega framkomu
 • ólögmæta þátttöku í leik
 • misnotkun lyfja eða áfengis í keppni
 • ofbeldi utan eða innan leikstaðar
 • önnur brot sem leiða til brottvikningar af leikmannasvæði.

Breytt á þingi KLÍ 2.maí 2012
Breytt á formannafundi 17.5.17
Breytt á 25. Þing KLÍ þann 27.05.2018