Fréttir frá keppnistímabilinu – Deildarkeppni liða

Facebook
Twitter

Deildarkeppnin er í fullum gangi þessa dagana og önnur mót fara fram samkvæmt venju. Um komandi helgi verður síðasta Íslandsmót ársins þegar keppt verður í tvímenningi það sem leiknir verða 8 leikir í forkeppni en það mót er með flesta leiki í einu af öllum Íslandsmótunum.

Í deildarkeppninni er mismunandi eftir deildum hve mörgum leikjum hvert lið hefur lokið en almennt er um 6 til 7 umferðum lokið heilt yfir. Ef rýnt er í stöðuna má sjá ýmislegt spennandi og gaman er að bera stöðuna saman við óformlega spá keilara um hvernig deildirnar fara.

1.  deild kvenna

Hér hafa flest lið lokið 6 umferðum og er lið ÍR-TT efst með 55,5 stig en KFR-Valkyrjur eru skammt undan með 53,5 stig en eiga leik til góða. Aðeins munar 10 stigum á 3. sæti og þess neðsta eða 6. sætis og allt getur því gert í þessari deild.

Ef staðan er borin saman við óformlegu spánna þá eru flestir þar á því að ÍR-TT hafi þetta á endanum en alls fengu þær 58% atkvæða og KFR-Valkyrjur 25%

1.  deild karla

Hér eru ÍR liðin PLS og L með ágæta forystu eftir 6 leiki, PLS með 69 stig og L liðið með 62,5. KR-A er þessa stundina að passa upp á neðsta sætið með 14 stig og KFR-Grænu töffararnir eru þar fyrir ofan með 23 stig en nóg er af stigunum það sem eftir er tímabilsins svo þetta getur allt breyst í næstu umferðum.

Næsta umferð er þess vegna nokkuð áhugaverð en þá mætast þessi lið innbyrgðis, ÍR-PLS tekur á móti ÍR-L og KR-A tekur á móti KFR-Grænu töffurunum.

Samkvæmt könnuninni sem gerð var þá eru flestir á því að ÍA-A liðið vermi efsta sætið að lokinni deildarkeppni eða um 47% en þeir eru þessa stundina í 3. sæti með 45 stig en eiga leik til góða.

2.  deild kvenna

Í 2. deild kvenna er smá spenna en þó aðalega um 2. sætið. KFR-Afturgöngur ætla sér greinilega að ganga aftur upp í deild þeirra bestu en þær eru þessa stundina með 68,5 stig. ÍA-Meyjur eru í 2. sætinu með 47,5 stig og í 5. sæti eru ÍR-KK með 42 stig.

Þær sem spila þarna í 2. deildinni ætla sér greinilega að standa undir spánni sem gerð var en þar var þeim spáð upp, Afturgöngurnar með 47% atkvæða og Meyjurnar með 35%.

2.  deild karla

Hér er staðan svolítið snúin því þau lið sem hafa leikið flesta leiki hafa lokið 7 umferðum en Þór-Víkingar hafa aðeins lokið 3 umferðum og önnur lið eitthvað þarna á milli. ÍR-Naddóður er í efsta sætinu um sinn með 63 stig og ÍA-W er í 2. sætinu með 57 stig, bæði lið hafa lokið 6 leikjum. Ef rýnt er í meðaltal liða þá eru Naddóðsmenn með 184 í liðsmeðaltal, ÍA-W með 157 en ÍR-Broskarlar eru með næst besta meðaltalið eða 176 en hafa einungis leikið 4 leiki og eru með 39 stig.

Spáin góða gerir ráð fyrir að, bara eitthvað gerist því atkvæðið dreifðust vel á milli liða, ÍR-Öðlingar með 18% en Þór var með 21% en það lið dróg sig úr keppni áður en hún hófst. Naddóður var með 11% eins og ÍA-W en ÍA-B var með 15% en þeir sitja í 9. sæti með 37 stig eftir 7 umferðir.

3.  deild karla

Hér hafa flest lið lokið 7 umferðum, einhver liðanna hafa lokið 6 en ÍA-Menn hafa einungis klárað 4 umferðir.

ÍR-Nas er í efsta stæði með 79 stig, ÍR-T er í 2. sætinu með 65, stigi á undan ÍR-Keila.is og 3. stigum fleiri en ÍR-Gaurar. Spennan því nokkur um efstu sætin og þáttökurétt í 2. deild að ári.

Spádómurinn hér gerir ráð fyrir að ÍR-Splitturnar þrjár myndu klára deildina í ár, fengu heil 48% atkvæða, áttu gott tímabil í fyrra en þeir eru þessa stundina aðeins í 7. sæti.

Stöðurnar í deildum má finna hér.

Nýjustu fréttirnar