Nýárspistill formanns

Facebook
Twitter

Gleðilegt nýtt ár kæra keilusamfélag og takk fyrir samstarfið og samveruna á liðnum árum.

Í upphafi nýs árs getur verið gaman og gagnlegt að líta yfir farin veg og skoða hvað hefur áunnist, hvað gekk vel og hvar má finna tækifæri til að gera betur. Nýta svo þá skoðun til að setja sér markmið til framtíðar.

Ný stjórn tók við maí sl. og er skipuð góðri blöndu af reynsluboltum og nýliðum. Sjálf er ég nýliði í stjórn KLÍ og það hefur verið áhugavert og krefjandi að setja sig inn í starfið en sem betur fer oftast gaman og gefandi.

Formaður ásamt stjórn, nefndum og framkvæmdastjóra vann að fjölbreyttum verkefnum á liðnu ári og fjölmörg spennandi verkefni eru framundan á nýja árinu. Búið er að breyta reglum um vensl, mótsreglum í Íslandsmóti deildarliða, reglugerð um Íslandsmót einstaklinga og reglugerð um landsliðsnefnd. Endurskoðun reglna mun halda áfram á árinu enda mikilvægt að skoða reglulega þá umgjörð sem við höfum búið okkur til og vera tilbúin að gera breytingar ef á þarf að halda.

Landsliðsmálin hafa verið mikið til umræðu og mun nýtt skipulag landsliðsmála líta dagsins ljós á árinu ásamt því að stöður landsliðsþjálfara verða mannaðar. Þá verður uppfærð afreksstefna lögð fyrir ársþing KLÍ í maí. Markmiðið með því öllu er auðvitað að efla afreksstarfið og þar með árangur afreksfólks á erlendri grundu.

Stjórn hefur einnig sett sér það markmið að gera keiluíþróttina sýnilegri og liður í því er að streyma frá öllum úrslitum og vera duglegri að flytja fréttir af afrekum okkar flotta íþróttafólks bæði hér heima og erlendis. Í því skyni hefur m.a. verið sett upp youtube rás fyrir KLÍ sem er kjörið að gerast ákrifandi að. Því miður var of kostnaðarsamt að halda áfram með úrvalsdeildina í samstarfi við SÝN en stjórn er að skoða hvort að hægt sé að finna annan flöt á þeirri skemmtilegu keppni sem var verulega góð kynning á keiluíþróttinni.

Þá er RIG, okkar stærsta mót, að bresta á og því fylgir alltaf mikill undirbúningur. Ég vona að sem flestir keilarar gefi sér tíma til að taka þátt, styðja við þennan skemmtilega viðburð og nýta tækifærið til að máta sig við þá erlendu keilara sem sækja mótið.

Sem formaður hef ég fundað með og rætt við allskonar fólk um málefni keiluíþróttarinnar, m.a. forseta ÍSÍ sem hefur sýnt mikinn vilja til að aðstoða okkur við efla íþróttarina. Ég hef líka sótt fund formanna og framkvæmdastjóra keilusambanda Norðurlandanna, ársþing EBF, fund formanna sérsambanda ÍSÍ, verið viðstödd val á íþrótti manni ársins og heimsótt forseta Íslands í nýársboð á Bessastöðum. Ég tel mikilvægt að nýta öll tækifæri til kynna og ræða keiluíþróttina og eru viðburðir og fundir mikilvægur hluti af því.

Ég tek jákvæð og spennt á móti nýju ári og vil að lokum nota tækifærið og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem gefa af tíma sínum til að sinna störfum fyrir keilusamfélagið, hvort sem það er á vegum KLÍ eða félaganna, framlag ykkar er ómetanlegt. Ég hlakka til samstarfs við keilusamfélagið allt á nýju ári og er sannfærð um að saman getum við gert gott samfélag ennþá betra.

Valgerður Rún Benediktsdóttir,

formaður stjórnar KLÍ

Nýjustu fréttirnar