Á ársþingi KLÍ, þann 24. maí sl. var því beint til stjórnar KLÍ að taka til skoðunar breytingar á reglum um rétt til verðlauna í Íslandsmóti deildarliða. Við yfirferð stjórnar komi í ljós að þörf var á heildstæðri endurskoðun á mótsreglum í Íslandsmóti deildarliða í ljósi þróunar á deildarkeppni undanfarin ár. Efnislegar breytingar á reglunum eru eftirfarandi:
- Gerður hefur verið greinarmunur á deildarkeppni karla og kvenna þar sem við á. (Sjá 2., 3. og 6. grein.)
- Sigurvegarar eftir deildarkeppni fá nú titilinn “Deildarmeistari” í viðkomandi deild en ekki “Íslandsmeistari”. Eingöngu er því keppt um Íslandsmeistaratitil í efstu deildum karla og kvenna. (Sjá 2. og 6. grein.)
- Riðlaskipting neðri deilda fellur út enda hefur ekki verið leikið samkvæmt því fyrirkomulagi um árabil.
- Bætt er inn skýrari heimild fyrir Mótanefnd KLÍ og stjórn að færa til lið milli deilda til að jafna fjölda í deildum. Við þá ákvörðun skal stjórn taka mið af þeim reglum sem gilda um umspil þegar lið dregur sig úr keppni. Sjái stjórn fram á að fækka þurfi í deildum skal sú ákvörðun tilkynnt í upphafi tímabils og taka gildi að því tímabili loknu. (Sjá 2. og 3. grein)
- Ef lið dregur sig úr keppni er gerð sú breyting á reglum um umspil í deildarkeppni karla að eingöngu er leikið umspil ef eitt sæti losnar í efri deild. Þau lið sem féllu úr viðkomandi deild leika þá umspil um laust sæti. Eftir það færast lið milli deilda eftir því í hvaða sæti þau enduðu tímabilið á undan. (Sjá 3. grein)
- Í fyrri reglum var ekki tekið á því hvernig færi með laust sæti í deildarkeppni kvenna ef lið dregur sig úr keppni. Samkvæmt nýjum reglum er ekki gert ráð fyrir sérstöku umspili um laus sæti enda hefur þegar farið fram umspil eftir deildarkeppni kvenna sem ákvarðar hvaða lið fara upp um deild eða falla. Er því gert ráð fyrir að lið færist milli deilda eftir því í hvaða sæti þau enduðu tímabilið á undan. (Sjá 3. grein)
- Í fyrri reglum var ekki fjallað um úrslitakeppni í 1. deild kvenna en úr því hefur verið bætt. (Sjá 6. grein.)
- Við umspil milli deilda í kvennadeildum, umspil þegar lið dregur sig úr keppni og í undanúrslitum í 1. deild karla er kveðið á um að lægra liðið fái fyrri heimaleik. (Sjá 2., 3. og 6. gr.)
- Í samræmvið við ályktun ársþings er nú kveðið á um að leikmenn eigi eingöngu rétt til verðlauna í þeirri deild sem þeir leika í með sínu aðalliði, þ.e. liðinu sem þeir eru skráðir í. Leikmenn sem leika í deild á grundvelli vensla eiga því ekki rétt til verðlauna í viðkomandi deild.