Svíarnir mættir til leiks á RIG 2013

Facebook
Twitter

Í ár mæta nokkrir af sterkustu keilurum Svíþjóðar til keppni á Reykjavik International mótinu sem fram fer í Keilhöllinni í Egilshöll. Sigurstranglegastan þeirra verður að telja Robert Andersson sem hefur unnið tvívegis og hefur titil að verja. Auk hans keppa á mótinu Matthias Årup, Matthias Möller, Kim Ojala, Rebecka Larsen og Joline Persson-Planefors. Munu þau öll spila í tveimur riðlum á morgun fimmtudaginn 24. janúar kl. 19:00 og á laugardaginn 26. janúar kl. 13:00.

Sjá nánar um mótið

Myndin er frá verðlaunaafhendingu RIG 2012. Sigurvegari var Robert Andersson, Skúli Freyr Sigurðsson ÍA varð í 2. sæti og Rebecka Larsen endaði í 3. sæti.

Robert Andersson er 31 árs og hefur keppt á öllum fyrri RIG mótunum og unnið tvívegis, árin 2010 og 2012. Robert spilar með Team Pergamon liðinu í Gautaborg, sem er eitt af sterkustu karlaliðum í sænsku deildinni og hefur verið fastamaður í sænska keilulandsliðinu til fjölda ára. Hann varð heimsmeistari í tvímenningi 2006, auk þess sem hann hefur unnið til margra annarra titla bæði í Svíþjóð og Evrópu.

 

Rebecka Larsen er 23 ára og mætir til keppni á RIG annað árið í röð og freistar þess örugglega að bæta árangur sinn frá því í fyrra þegar hún endaði í 3. sæti mótsins. Rebecka er ein af sterkustu kvenkeilurum Evrópu í dag og spilar með liðinu Team X-Calibur frá Gautaborg sem er eitt af topp liðunum í sænsku kvennadeildinni, auk þess að spila með kvennalandsliðinu. Rebecka varð Evrópumeistari í þrímenningi og einstaklingskeppni á Evrópumóti kvenna á árinu 2012, auk þess sem hún hefur unnið til fjölda annarra titla bæði innan og utan Svíþjóðar.

 

Matthias Möller er 25 ára og mætir til keppni á RIG í fimmta sinn og hefur endað í 8. sæti síðustu þrjú árin. Hann spilar með liði Höganäs BC, var sænskur unglingalandsliðsmaður og varð meðal annars Evrópumeistari ungmenna í liðakeppni 5 manna 2005.

Joline Persson-Planefors er 22 ára og mætir til keppni á RIG í fyrsta sinn. Hún er einnig meðal sterkustu kvenkeilara í Evrópu, spilar með Team X-Calibur og sænska kvennalandsliðinu. Joline varð Evrópumeistari í tvímenningi og þrímenningi á Evrópumóti kvenna á árinu 2012, auk þess sem hún hefur unnið til fjölmargra annarra titla í Svíþjóð og erlendis.

Matthias Årup er 35 ára og mætir til keppni í RIG í fyrsta skipti. Hann spilar einnig með Team Pergamon liðinu, er sænskur landsliðsmaður og varð meðal annars heimsmeistari í tvímenningi 2010.

Kim Ojala er 22 ára og mætir einnig til keppni á RIG í fyrsta sinn. Hann spilar með liði Team Pergamon og er sænskur landsliðsmaður og hefur meðal annars orðið Evrópumeistari ungmenna í þrímenningi 2007.

Nýjustu fréttirnar