Íslandsmót para 2007

Facebook
Twitter

Glæsileg spilamennska, hörkuspennandi barátta og fjöldi Íslandsmeta. Þannig hljómar í stuttu máli lýsingin á Íslandsmóti para sem fram fór mánudaginn 8. og þriðjudaginn 9. janúar.

Ný nöfn verða letruð á farandbikarinn í þetta sinn, Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR og Róbert Dan Sigurðsson ÍR tryggðu sér titilinn þegar þau unnu fráfarandi og margfalda meistara Sigfríði Sigurðardóttur KFR og Björn Sigurðsson KR í úrslitunum 3-0. Tölurnar gefa til kynna að sigurinn hafi verið öruggur, en það var öðru nær allir leikirnir voru hörkuspennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en í síðasta ramma. Sjá úrslit

Dagný Edda Þórisdóttir og Hafþór Harðarson úr KFR tryggðu sér 3. sætið í mótinu.

Þrjú glæsileg ný Íslandsmet voru sett í mótinu. Magna Ýr Hjálmtýsdóttir KFR setti met í 4 og 6 leikja röð í aldursflokki 17-18 ára stúlkna þegar hún spilaði 802 og 1155 á mánudaginn.  Síðan slógu Sigfríður Sigurðardóttir KFR og Björn Sigurðsson KR metið í einum leik pars á þriðjudaginn þegar þau spiluðu 520 í einum leik þar sem Sigfríður spilaði 266 leik og Björn spilaði 254.

Eftir milliriðilinn voru Sigfríður og Björn í efsta sæti með 4958 eða 206,58 að meðaltali í leik. Keppnin um annað sætið í úrslitunum var mjög spennandi, en fór þannig að Magna Ýr og Róbert Dan héldu sínu sæti með 4667 eða 194,46 að meðaltali. Í þriðja sæti og 30 pinnum á eftir komu Dagný Edda og Hafþór með 4637 eða 193,21, en Guðný Gunnarsdóttir og Halldór Ragnar Halldórsson úr ÍR enduðu í fjórða sæti og 57 pinnum frá úrslitunum með 4610.  Sjá stöðu að loknum milliriðli

Sigfríður spilaði best kvenna og átti tvær hæstu seríurnar 1243 og 1221 eða 205,33 að meðaltali í leik. Halldór Ragnar spilaði best karla með 1287 og 1280 seríur eða 213,92 að meðaltali, en Árni Geir Ómarsson ÍR átti hæstu seríu karla 1317. Auk þeirra Íslandsmeta sem áður er getið, var Karen Rut Sigurðardóttir ÍR aðeins 4 pinnum frá því að slá met í einum leik þegar hún spilaði 254.

Keilusamband Íslands vill þakka Atlantsolíu sérstaklega fyrir stuðninginn en þeir gáfu verðlaun í mótið.

Nýjustu fréttirnar