Ársþing KLÍ tókst vel

Facebook
Twitter
13. ársþing Keilusambands Íslands var haldið í Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum á Akranesi í gær og er þetta í fyrsta sinn KLÍ heldur þing utan Reykjavíkur. Viljum við sérstaklega þakka Skagamönnum fyrir góðar móttökur og veitingar.
 
Mjög góð mæting var á þingið, eða 22 fulltrúar frá öllum aðildasamböndum innan íþróttarinnar, auk stjórnar KLÍ og þingforseta, Hafsteins Pálssonar úr framkvæmdastjórn ÍSÍ. Á þinginu fór Valgeir Guðbjartsson, formaður, yfir störf sambandsins síðastliðið tímabil og þau verkefni sem framundan eru.
 
Nýkjörinn forseti ÍSÍ, Ólafur Rafnsson, heiðraði þingið með nærveru sinni og var þetta fyrsta þing sérsambands sem hann situr sem forseti ÍSÍ. Ræddi hann m.a. um aðstöðumál keilunnar á Íslandi og hafði orð á góðum og ábyrgum rekstri Keilusambandsins. Fyrir þinginu lágu tvær tillögur að reglugerðarbreytingum, auk þess sem tillaga um stofnun nefndar, sem fara á yfir og samræma reglugerðir Keilusambandsins, var samþykkt. Ný stjórn Keilusambandsins mun skipa í þá nefnd og verður henni ætlað að skila tillögum að breytingum til stjórnar í haust.
 
Á þinginu gengu Sigríður Klemensdóttir og Sigfríður Sigurðadóttir úr stjórn og gáfu þær ekki kost á sér til endurkjörs. Í þeirra stað voru Halldóra I. Ingvarsdóttir og Þórhallur Hálfdánarson kosin í stjórn sambandsins til tveggja ára. Í varastjórn voru kjörin til eins árs þau Árni Geir Ómarsson, Theódóra Ólafsdóttir og Þórarinn Már Þorbjörnsson, en Linda Hrönn Magnúsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Á síðasta þingi voru þeir Valgeir Guðbjartsson formaður, Bragi Már Bragason og Guðmundur Sigurðsson kjörnir til tveggja ára. Á næstu dögum mun Ásgrímur Helgi Einarsson láta af störfum sem starfsmaður Keilusambandsins og hefur ekki verið tekin ákvörðun um eftirmann hans.
 
Skýrsla stjórnar, ársskýrsla, þinggerð og lagabreytingar verða birtar á heimasíðu KLÍ.
 
KLÍ
 

Nýjustu fréttirnar