ECC 2014 að hefjast

Facebook
Twitter

Eins og kunnugt er verður keppni Evrópubikars einstaklinga í keilu 2014 í Keiluhöllinni Egilshöll næstu daga. Fyrir Íslands hönd keppa þau Magnús Magnússon ÍR og Ástrós Pétursdóttir ÍR en þau eru Íslandsmeistarar einstaklinga 2014. Erlendu keppendurnir og aðstoðarmenn þeirra eru flestir komnir til landsins og óformlegar æfingar eru hafnar. Á morgun hefst svo mótið með formlegum æfingum kl. 10:00 og standa þær fram til kl. 19:00. Að þeim loknum verður síðan opnunarhátíð mótsins og hefst hún stundvíslega kl 20:00. Keppendur munu þá ganga fylktu liði inn í salinn ásamt því að ræður verða fluttar. Einnig munu Andrés Haukur Hreinsson, fyrir hönd starfsfólks mótsins, og Ástrós Pétursdóttir, fyrir hönd leikmanna, fara með drengskaparheit starfsmanna og keppenda.

Keppnin hefst svo með því að fyrsti riðill kvenna hefur leik miðvikudaginn kl 09:00. Karlarnir hefja svo keppni en fyrsti riðill þeirra hefur leik sama dag kl 14:30. Leiknir verða þrisvar sinnum 8 leikir í forkeppni og fara svo átta efstu karlar og átta efstu konur í 8 manna úrslit.

Úrslitakeppnin verður laugardaginn 18. október og hefst hún kl 09:00. Úrslitakeppnin er leikin þannig að um útsláttarkeppni er að ræða og þarf keppandi að sigra andstæðing sinn í tveim leikjum til að komast áfram. Sá sem er efstur eftir forkeppni mætir þeim sem er í áttunda sæti, annað sætið keppir á móti þeim sem var í sjöunda og svo koll af kolli. Undanúrslitin verða þannig að sá sem var ofar eftir forkeppni keppir við þann sem var lægstur og þeir sem voru í miðjunni keppa sín á milli. Sá sem fyrr vinnur 2 leiki kemst í sjálfan úrslitaleikinn og keppir um titilinn Evrópumeistari einstaklinga 2014. Áætlað er að sjálf úrslitin hefjist kl 12:30 hjá konunum en kl 14:00 hjá körlum. Sjónvarpað verður frá laugardeginum á bæði sportrás RÚV sem og á SportTV.

Húsið verður opið fyrir áhorfendur og eru keilarar hvattir til að mæta og fylgjast með enda er hér um að ræða sterkasta mót sem haldið hefur verið hér á landi og fágætt tækifæri til að sjá bestu keilara í Evrópu spila. Aðgangur er ókeypis. Úrslit og aðrar upplýsingar verða svo birtar hér á síðu Keilusabandsins og á vef mótsins www.ecc2014.is

 

Nýjustu fréttirnar