Reglugerð KLÍ um venslasamning liða

1. grein          

Venslasamningur liða felur það í sér að tvö lið innan sama félags gera samning sín á milli um að þau geti skipst á leikmönnum á því tímabili sem samningurinn kveður á um.  Eftir að slíkur samningur tekur gildi verða leikmenn hlutgengir með báðum liðum og mega því taka þátt í leikjum beggja liða í tilteknum mótum á viðkomandi keppnistímabili.

 

2. grein

Hverju liði er aðeins heimilt að gera einn venslasamning á hverju tímabili.  Hægt er að gera venslasamning frá því að skráningu liða til keppni í Íslandsmót liða lýkur til og með 31. janúar.  Frá 1. febrúar og til loka keppnistímabils er lokað fyrir gerð venslasamninga.  Skráningargjald vegna venslasamninga skal ákveðið af stjórn KLÍ fyrir hvert tímabil.

 

3. grein

Lið sem gera venslasamning sín á milli mega ekki leika í sömu deild í Íslandsmóti liða og verða að vera af sama kyni. Lið í efri deild er kallað lið A og lið í neðri deild er kallað lið V.

 

4. grein

Gildistími venslasamnings er til loka þess keppnistímabils sem hann er gerður og skal samningur ekki taka gildi fyrr en hann hefur verið formlega staðfestur af KLÍ. Skal fyrirliðum liða A og V sem og stjórn félags þeirra liða send staðfesting þess efnis.

 

5. grein

Venslasamningur gildir í Íslandsmóti liða skv. eftirtöldum ákvæðum.

  1. Allir löglegir leikmenn liða A og V heyra undir venslasamninginn og hafa rétt á að færast á milli liðanna, að því undanskildu að leikjahæsti leikmaður hvort sem hann er skráður í lið A eða V, sem er leikjahæstur  með liði A, má ekki leika með liði V.  Komi fleiri en einn leikmaður til greina skal nota hærra meðaltal til ákvörðunar um hver ekki megi leika með liði V.  Ef leikmaður hefur ekki leikið í þrjár leikvikur eða meira, en er samt  leikja- eða meðaltalshæstur liðs A skv. fyrrnefndu, má hann leika eina umferð með liði V í þeirri leikviku þegar hann hefur leik í deildarkeppni KLÍ aftur.
  2. Leikmaður má ekki spila með báðum liðum í sömu leikviku í deildarkeppni.  Leikvika hefst á laugardegi og lýkur á föstudagi.  Sjá nánar í leikjatöflu á heimasíðu KLÍ.
  3. Leikmaður á rétt á einstaklingsverðlaunum í þeirri deild þar sem hann hefur leikið fleiri leiki, að uppfylltum öðrum skilyrðum um verðlaun í deildum.
  4. Verði leikmaður uppvís að því að brjóta ofangreindar reglur dæmist skor hans að engu, og leikur þess liðs sem hann lék með síðar í leikvikunni telst því liði tapaður með fullu húsi stiga.

 

6. grein

Venslasamningur gildir í Bikarkeppni liða skv. eftirtöldum ákvæðum.

  1. Leikmaður getur aðeins leikið í Bikarkeppni liða með því liði sem hann leikur með fyrr á hverju tímabili.
  2. Leikmaður sem er á leikskýrslu síns liðs án þess að kasta í viðkomandi viðureign telst engu að síður hafa tekið þátt í viðkomandi viðureign.

 

 

7. grein

Lið sem brjóta gegn reglum þessum eru svipt venslamningi og missa réttinn á að nota venslasamninginn í 10 umferðir frá broti. Leikmaðurinn sem braut af sér skal sæta allt að þremur seríum í bann. Lið það sem notaði leikmanninn tapar leiknum með fullu húsi stiga sbr. Reglugerð KLÍ um keilumót.

8. grein

Aganefnd KLÍ fjallar um brot á reglugerð þessari.

 

Samþykkt á 18. Þingi KLÍ 12. maí 2011 og formannafundi 15. september 2011

Samþykkt af stjón KLÍ 10.október 2015

Breytt á 24. Þingi KLÍ þann 22. Maí 2017