Ástrós og Gústaf Smári Íslandsmeistarar 2018

Facebook
Twitter

Á laugardaginn lauk keppni á Íslandsmóti einstaklinga 2018. Ástrós Pétursdóttir úr ÍR og Gústaf Smári Björnsson úr Keilufélagi Reykjavíkur (KFR) eru Íslandsmeistarar einstaklinga 2018. Úrslitin fóru fram í beinni útsendingu á RÚV og má nálgast upptökuna á vef þeirra.

Konurnar léku fyrst til úrslita og lagði Ástrós hana Lindu Hrönn Magnúsdóttur úr ÍR í nokkuð spennandi leik þar sem sigurinn hefði geta fallið annarri hvorri í vil og réðust úrslit ekki fyrr en í síðasta ramma leiksins. Áður spiluðu þær ásamt Mögnu Ýr Hjálmtýsdóttur úr KFR sem féll úr keppni í þeim leik og varð því í 3. sæti.

Karlarnir tóku þá við og lagði Gústaf Smári félaga sinn úr KFR hann Arnar Davíð Jónsson í úrslitum en mikil spenna var í leikjunum hjá þeim. Stefán Claessen úr ÍR varð svo í 3. sæti.

Gústaf Smári vann þarna sinn annan Íslandsmeistaratitil en hann sigraði mótið einnig í fyrra. Ástrós var einnig að ná sínum öðrum titil en hún vann mótið árið 2014. Til gamans má geta að Linda Hrönn er 59 ára á árinu og er keilan ein fárra íþróttagreina þar sem einstaklingur getur verið í fremstu röð lengur en gengur og gerist í öðrum íþróttagreinum. Það er alveg ljóst að Linda er hvergi nærri hætt og spilaði hún afskaplega vel í mótinu.

Efst kvenna eftir forkeppni varð Ástrós Pétursdóttir úr ÍR með 186,3 í meðaltal og þær Linda Hrönn og Magna Ýr sem komust í úrslitin voru í 2. og 3. sæti þar en höfðu svo sætaskipti eftir milliriðilinn.

Arnar Davíð Jónsson var efstur hjá körlum eftir forkeppnina með 221,0 í meðaltal og ÍR-ingarnir Stefán Claessen og Einar Már Björnsson voru í 2. og 3. sæti. Eftir milliriðilinn var Jón Ingi Ragnarsson úr KFR í 3. sæti en Gústaf Smári var þá í 5. sæti. Gústaf vann sig svo upp og inn í úrslitin með frábærri spilamennsku í undanúrslitunum en þar kepptu efstu 8 keilararnir þar sem leikið var maður á mann alls 7 leikir.

Alls tóku 24 karlar þátt í mótinu í ár sem og 24 konur og er þetta mesti fjöldi kvenna sem hefur tekið þátt í mótinu hingað til. Alls voru spilaðir 866 leikir á mótinu í ár. Þeir sem lengst fóru spiluðu alls 27 leiki þar af 15 á laugardaginn. Andrés Páll Júlíusson úr ÍR náði sínum þriðja fullkomna leik á ferlinum í mótinu eða 300 pinnar sem er þá jöfnun á Íslands- og Heimsmeti í keilu.

Í verðlaunaafhendingu að loknu móti var Jóna Gunnarsdóttir úr KFR sæmd Silfurmerki KLÍ en þetta er hennar 30. Íslandsmót í röð sem hún tekur þátt í. Glæsilegt afrek það hjá Jónu.

Keilusambandið óskar verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn og þakka öllum þátttökuna á mótinu í ár. Keilusambandið þakkar einnig RÚV fyrir glæsilega útsendingu á Meistaradögum RÚV.

Ástrós Pétursdóttir ÍR er Íslandsmeistari einstaklinga 2018  Gústaf Smári Björnsson KFR er Íslandsmeistari 2018  Jóna Gunnarsdóttir KFR sæmd Silfurmerki KLÍ

Nýjustu fréttirnar