Fyrri degi á Íslandsmóti unglinga lokið

Facebook
Twitter

Steindór Máni Björnsson ÍRÍ morgun var leikið á Íslandsmóti unglinga en þetta var fyrri umferðin í mótinu. Alls taka 38 krakkar þátt í keppninni í ár þar af 13 frá ÍA, 12 frá ÍR, 11 frá KFR og 2 frá Þór. Mótið fer þannig fram að í 1. og 2. flokki stúlkna og pilta eru leiknir 6 leikir hvorn daginn í forkeppninni en í 3., 4. og 5. flokki beggja kynja eru leiknir 4 leikir hvorn daginn. Á morgun sunnudaginn 4. mars fer svo fram seinni umferðinn auk úrslita í 1., 2. og 3. flokki auk opna flokksins en þar taka þátt þeir 3 sem hafa hæsta meðaltal úr mótinu óháð flokki.

Bestur pilta í dag var Steindór Máni Björnsson úr ÍR en hann keppir í 1. flokki pilta og náði 1.263 pinnum í 6 leikjum eða 210,5 í meðaltal. Best stúlkna var Sara Bryndís Sverrisdóttir sem keppir í 3. flokki og var hún með 617 í fjórum leikjum eða 154,3 í meðaltal.

Fjölmennasti flokkurinn á mótinu í ár er 4. flokkur pilta en þar keppa 8 sprækir piltar um titilinn í ár. Fjölmennasti stúlknaflokkurinn er 3. flokkur en þar eru þær 7 sem keppa. Aðeins fer fram úrslitakeppni í 1., 2. og 3. flokki þar sem 4 eða fleiri keppa. Í 4. flokki sigrar sá sem er efstur eftir forkeppni en samkvæmt reglum ÍSÍ er ekki keppt um titilinn í 5. flokki en þar fá allir þátttakendur verðlaun að loknu móti.

Á morgun 4. mars byrja 1. og 2. flokkur keppni kl. 08:00 í Egilshöll en aðrir flokkar hefja keppni kl. 8:45.

Nýjustu fréttirnar