Arnar Davíð á Ballmaster Open í Finnlandi

Facebook
Twitter

Núna um helgina fer fram Ballmaster Open í Finnlandi en þetta er eitt fjölmennasta mótið á Evróputúrnum á hverju ári. Eins og búast má við hefur mótaröðin verið á ís vegna Covid-19 en smátt og smátt fara mótin að komast á dagskrá og verður spennandi að fylgjast með gengi okkar mans og vonandi annarra á mótaröðinni þetta tímabilið.

Arnar Davíð Jónsson úr Keilufélagi Reykjavíkur endaði forkeppni mótsins í 49. sæti af 344 með 1.350 seríu eða 225,0 meðaltal. 38 efstu keilararnir komust beint inn í úrslitakeppnina en Arnar komst þó áfram með því að eiga aðra bestu seríu í riðlum 9 til 11 en tvær bestu seríur nokkurra riðla komust áfram samkvæmt mótsreglum.

Spilaði Arnar Davíð því í svokölluðu Final Step 1 og gerði hann sér þar lítið fyrir og náði 4. sætinu með því að leika 6 leikja seríu á 1.381 eða 230,2 í meðaltal. Komst hann því áfram í mótinu í næsta þrep úrslitanna. Þar fóru keilurnar þó ekki alveg eins og ætlast var til. Arnari Davíð gekk vel í fyrsta leik með 239 en svo fór að síga á ógæfuhliðinna þó með einum 246 í 4. leik. Fékk Arnar nokkuð margar glennur í leikjunum og skorið eftir því lágt. Spilaðir voru 8 leikir og endaði Arnar Davíð í 32. og neðsta sæti þessa úrslita og mótsins alls með 1.586 pinna eða 198,3 í meðaltal. Engu að síður mjög góður árangur hjá Arnari Davíð.

16 efstu keilararnir komust áfram úr þessum úrslitum og halda áfram að berjast um efstu sætin þar til að sjónvarpsúrslitum kemur kl. 15:00 í dag. Mögulega er hægt að hofa á úrslit mótsins í beinni á netinu hér. Hægt er að sjá alla riðla forkeppninnar sem og úrslitaþrep mótsins á YouTube rás mótsins. Nánari upplýsingar mótsins og úrslit má finna á vefsíðu Ballmaster Open.

Arnar Davíð Jónsson sigraði Evróputúrinn 2019 eins og kunnugt er og varð það sama ár í 5. sæti í kjöri íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins. Arnar býr og æfir í Svíþjóð til að geta lagt stund á íþróttina að fullum krafti vegna viðvarandi aðstöðuleysis hér heima. Nýtur hann þar stuðnings sænskra aðila með aðstöðu og búnað. Arnar Davíð er einnig á styrk frá Afrekssjóði ÍSÍ sem sannarleg léttir undir íþróttafólki sem ætlar sér að vera í fremstu röð.

JÁJ

Nýjustu fréttirnar