Bikarmeistarar KLÍ 2014

Facebook
Twitter

KFR-Valkyrjur og ÍR-KLS eru Bikarmeistarar liða í keilu 2014, en liðin tryggðu sér sigur í úrslitum Bikarkeppni liða í keilu 2014 sem fóru fram í Keiluhöllinni Egilshöll miðvikudagskvöldið 23. apríl.

KFR-Valkyrjur voru að vinna titilinn í áttunda sinn, en þær voru meðal annars Bikarmeistarar 6 ár í röð á árunum 2004 til 2009. ÍR-KLS vann titililinn fimmta árið í röð og í tíunda skipti alls.

Lið ÍR-KLS vann lið KFR-Lærlinganna í bráðabana eftir fjóra leiki sem fóru 2 – 2. ÍR-KLS vann fyrstu tvo leikina, fyrri leikinn með 891 gegn 814 hjá KFR-Lærlingum og annan leikinn með stórleik uppá 945 á móti 808. KFR-Lærlingar létu það þó ekki slá sig útaf laginu og komu ákveðnir til leiks í þriðja leik og unnu hann með 815 á móti 800 hjá ÍR-KLS. Ákveðnir í að halda uppteknum hætti unnu KFR-Lærlingar svo fjórða leikinn með 837 á móti 793 hjá ÍR-KLS og tryggðu sér þar með bráðabana.

Undir lok fjórða leiksins fór brunakerfið í gang og gall kallkerfið við í hæsta styrk með fagurri kvenmannsrödd sem bað viðstadda ítrekað um að halda kyrru fyrir  á meðan komist væri að því hvað væri að, það endaði svo með því að allir voru beðnir um að rýma húsið og fór að finnast vond lykt og reykjarský sást í salnum. Allt endaði þetta vel og þurftum við ekki að yfirgefa salinn að fullu enda hafði bara brunnið yfir mótor á einni brautinni innst í húsinu og var húsið reyk og lyktarræst með því að opna allt uppá gátt og fannst fólki þá loftræstingin loksins virka í salnum og vera viðunandi hitastig þar.

Þegar allir voru komnir inn aftur var tekið til við að spila 9-10 ramma, KFR-Lærlingar felldu allir í 9. ramma en ÍR-KLS náðu 2 feykjum, opnum og einni fellu í 9. ramma og voru frekar niðurlútir í upphafi 10. ramma, en það breyttist fljótt þegar fyrstu mönnum Lærlinganna mistókst að halda uppteknum hætti og náðu ÍR-KLS að klára leikinn með 145 gegn 127 hjá KFR-Lærlingum. Samtals spiluðu ÍR-KLS 3574 eða 212,74 að meðaltali en KFR-Lærlingar spiluðu samtals 3401 eða 202,44 að meðaltali.

Lið KFR-Valkyrjanna vann lið ÍR-Buff 3 – 1. KFR-Valkyrjur unnu fyrstu tvo leikina, þann fyrri með einungis 8 pinna mun, 720 gegn 712 hjá ÍR-Buff og annan leikinn með 658 gegn 562. ÍR-Buff konur komu ákveðnar til leiks í þriðja leik og unnu hann með 715 gegn 630 hjá KFR-Valkyrjum. Fjórða leikinn unnu svo KFR-Valkyrjur með 646 gegn 624 hjá ÍR-Buff eftir tafir vegna rýmingar. Samtals spiluðu KFR-Valkyrjur 2654 eða 165.88 að meðaltali í leik en ÍR-Buff spilaði samtals 2613 eða 163,31 að meðaltali.

Sjá leikskýrslur og skor HÉR.

 

Nýjustu fréttirnar