AMF World Cup 2013

Facebook
Twitter

Guðný Gunnarsdóttir ÍR og Arnar Sæbergsson ÍR áunnu sér í dag rétt til þátttöku á 49. QubicaAMF Bowling World Cup heimsbikarmóti einstaklinga sem fram fer í Sibiryak Bowling Centre í borginni Krasnoyarsk í Rússlandi dagana 15. – 24 nóvember 2013. Sjá nánar um Qubica AMF Bowling World Cup mótið á heimasíðu QubicaAMF

Úrslitakeppni AMF mótaraðarinnar í keilu fór fram í Keiluhöllinni í Egilshöll í dag. Þar áttu keppnisrétt 10 stigahæstu keppendurnir úr öllum þremur AMF mótum vetrarins og spiluðu einfalda umferð allir við alla. Að því loknu kepptu fjórir efstu keppendurnir til úrslita, en það voru Hafþór Harðarson ÍR, Magnús Magnússon ÍR Arnar Sæbergsson ÍR og Magnús S. Guðmundsson ÍA. Í fyrsta leik kepptu Arnar Sæbergsson og Magnús S. Guðmundsson og vann Arnar með 248 á móti 136. Arnar keppti því næst við Magnús Magnússon og vann þann leik með 257 á móti 203. Að lokum keppti Arnar við Hafþór Harðarson og vann hann í æsispennandi úrslitaleik þar sem úrslit réðust í síðasta kasti með 192 á móti 189. Guðný Gunnarsdóttir ÍR náði bestum árangri kvenna í mótaröðinni á þessu keppnistímabili, endaði í 5. sæti og setti Íslandsmet í 9 leikjum.

Þetta var í þriðja sinn sem Arnar vinnur AMF mótaröðina og keppnisrétt á Qubica AMF heimsbikarmóti einstaklinga, en hann keppti síðast á mótinu í Lljubliana í Slóveníu árið 2005. Guðný ávann sér rétt til þátttöku í sjötta sinn, en hún keppti á mótinu í  Wroclaw í Póllandi í fyrra og í Lljubliana í Slóveníu árið 2005.

Í mótinu voru sett tvö ný Íslandsmet. Hafþór Harðarson ÍR setti í dag Íslandsmet í 9 leikjum karla með samtals 2.190 pinna og bætti met Ásgeirs Þórs Þórðarsonar frá árinu 2004 um 89 pinna. Guðný Gunnarsdóttir ÍR setti í gær Íslandsmet í 9 leikjum kvenna þegar hún spilaði 1.768 og bætti met Sigfríðar Sigurðardóttur frá árinu 2004 um 4 pinna.

Nýjustu fréttirnar