Að loknu Íslandsmóti einstaklinga

Facebook
Twitter

Jóna Gunnarsdóttir úr KFR-Afturgöngunum, sem er einn af okkar reyndustu kvenkeilurunum, náði þeim merka áfanga að taka þátt í Íslandsmóti einstaklinga 25 árið í röð þegar mótið fór fram um síðustu mánaðarmót. Það sem er ennþá markverðara er að hún hefur alltaf komist áfram úr forkeppninni og hennar besti árangur er Íslandsmeistaratitilinn árið 1993. Jóna var landsliðskona til fjölda ára hefur margsinnis orðið Íslands-, Bikarmeistari og Meistari meistaranna með liði sínu og unnið til fjölda annarra titla bæði í liða- og einstaklingskeppni.

 

Svo er einnig gaman er að segja frá því að fjöldi áhorfenda mætti til að fylgjast með spennandi keppni í fyrsta sinn sem þetta mót er haldið í keilusalnum í Egilshöll. Margir notuð einnig nýjustu tækni og fylgdust með fréttunum á heimasíðu og samskiptavef Keilusambandsins og/eða fylgdust með beinni útsendingu Sporttv frá keppninni í undanúrslitum og úrslitum. Benda má á að upptakan hjá Sporttv er aðgengileg á vefnum hjá þeim í 6 mánuði eftir útsendingu. Það skal ósagt látið hvort það var þessi athygli sem varð til þess að fulltrúar lyfjanefndar ÍSÍ mættu til að taka sigurvegarana í lyfjapróf, en að minnsta kosti er það í fyrsta skipti í mörg ár sem okkur er auðsýndur sá heiður.

Svona mót er ekki haldið nema fjöldi manns komi að vinnunni við undirbúning og framkvæmd mótsins og eins og áður þá er það mótanefnd KLÍ sem ber mestan hitann og þungann af vinnunni. Að þessu sinni voru það þeir Heiðar Rafn Sverrisson og Andrés Haukur Hreinsson lögðu til flestar stundirnar, en fjölmargir komu þeim til aðstoðar frá ÍFH, KFR og ÍR. Svo má ekki gleyma öllu starfsfólki Keiluhallarinnar, fréttaritara, ljósmyndara, fréttamanni, myndatökutökumönnum og fleiri sem öll lögðu sitt af mörkum.

Keppni á Íslandsmóti einstaklinga í keilu 2013 fór fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og Keiluhöllinni í Egilshöll dagana 2. – 5. febrúar. Alls tóku 14 konur og 28 karlar þátt í forkeppni mótsins og er það sami fjöldi og undanfarin ár. Keppt var við krefjandi aðstæður þar sem spilað var í tveimur mismunandi olíuburðum sem báðir reyndu mikið á keppendur. Í forkeppninni var spilað annan daginn í stuttum olíuburði og hinn daginn í löngum olíuburði. En þegar komið var lengra í keppninni var spilað í báðum olíuburðum í einu, þannig að langi olíuburðurinn var á vinstri braut og stutti olíuburðurinn á hægri braut. En það fyrirkomulag hefur meðal annars tíðkast á Evrópubikarmóti landsmeistara sem sigurvegar mótsins ávinna sér rétt til þátttöku á. Nánari upplýsingar má finna í fréttum af Íslandsmóti einstaklinga hér á heimasíðunni.
 

Nýjustu fréttirnar