Forkeppni hafin á Íslandsmóti einstaklinga í keilu

Facebook
Twitter

Guðný Gunnarsdóttir ÍR og Kristján Þórðarson ÍA eru efst í keppninni á Íslandsmóti einstaklinga í keilu þegar forkeppnin er hálfnuð.

Alls mættu 14 konur til keppni í kvennaflokki í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð í morgun þar sem spilað var í stuttum olíuburði. Fjórar efstu konurnar spiluðu mjög vel og voru allar á yfir 180 meðaltali í 6 leikjunum.  Þær eru núna komnar með nokkuð forskot á aðra keppendur, en einungis munar 37 pinnum á 1. og 4. sæti.

Alls mættu 28 karlar til keppni í karlaflokki á Íslandsmóti einstaklinga í morgun. Fjórir efstu karlarnir spiluðu mjög vel og eru með yfir 210 að meðaltali í 6 leikjum.

Guðný Gunnarsdóttir ÍR spilaði best og er í efsta sætinu með samtals 1.118 pinna eða 186,33 að meðaltali í 6 leikjum. Dagný Edda Þórisdóttir KFR er í 2. sæti með 1.069 eða 183,17, Ragnheiður Þorgilsdóttir ÍFH er í 3. sæti með 1.090 og 181,67 í meðaltal og Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR er í 4. sæti með 1.081 og 180.17 að meðaltali. Keppnin um sæti í milliriðli er að saman skapi jöfn og spennandi og munar aðeins nokkrum pinnum á milli sæta þannig að margt getur breyst í seinni hluta forkeppninni þar sem spilað verður í löngum olíuburði í Egilshöllinni á morgun. Sjá stöðuna í kvennaflokki

Kristján Þórðarson ÍA spilaði best allra í löngum olíuburði í Egilshöllinni samtals 1.426 pinna eða 237,67 að meðaltali. Skúli Freyr Sigurðsson ÍA spilaði í stuttum olíuburði í Öskjuhlíð og er í 2. sæti með 1.414 eða 235,67 að meðaltali, Björn Birgisson KFR spilaði í Egilshöllinni og er í 3. sæti með samtals 1.318 og 219,67 í meðaltal og Magnús Magnússon sem hóf forkeppnina í Öskjuhlíðinni er í 4. sæti með 1.262 eða 210,33 að meðaltali. Keppnin um 16. sætið og sæti í milliriðli er ennþá hörð og margt sem getur breyst á morgun. Sjá stöðuna í karlaflokki

Keppni á Íslandsmóti einstaklinga í keilu 2013 fer fram í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð og Keiluhöllinni í Egilshöll dagana 2. – 5. febrúar n.k.
 
Forkeppnin fer fram í Öskjuhlíðinni og Egilshöllinni laugardaginn 2. og sunnudaginn 3. febrúar og hefst kl. 9:00 báða dagana. Spilaðir eru 12 leikir í forkeppninni, 6 leikir í stuttum olíuburði í Öskjuhlíð og 6 leikir í löngum olíuburði í Egilshöll og þurfa keppendur að ákveða við skráningu í hvoru húsinu þeir byrja. Mótanefnd áskilur sér rétt til jafna fjölda þátttakanda milli húsa. Verð í forkeppnina er kr. 10.000. Sjá brautaskipan í forkeppni
 
Keppni í milliriðli fer fram í Egilshöllinni mánudaginn 4. febrúar og hefst kl. 19:00. Í milliriðli spila efstu 16 karlarnir og efstu 12 konurnar 6 leiki og komast 8 efstu kepppendurnir úr hvoru flokki áfram í undanúrslit. Spilað verður í löngum olíuburði á vinstri braut og stuttum olíuburði á hægri braut. Verð í milliriðilinn er kr. 5.000.

Keppni í undanúrslitum fer fram í Egilshöllinni þriðjudaginn 5. febrúar og hefst kl. 19:00. Þar keppa 8 efstu karlarnir og efstu 8 konurnar einfalda umferð allir við alla með bónusstigum fyrir unninn leik. Áfram verður spilað í löngum olíuburði á vinstri braut og stuttum olíuburði á hægri braut. Verð í undanúrslitin er kr. 5.500.

Efstu keppendurnir í hvorum flokki keppa síðan til úrslita um titilinn Íslandsmeistari einstaklinga og ávinna sér einnig keppnisrétt á Evrópubikarmóti einstaklinga ECC2013 sem haldið verður í Bratislava í Slóvakíu dagana 21. – 28 október 2013

Sjá nánar í auglýsingu og reglugerð um Íslandsmót einstaklinga Stutti olíuburðurinn í mótinu er  36 fet Järven og langi olíuburðurinn er 44 fet Älgen.

 

Nýjustu fréttirnar