QubicaAMF – forkeppni lokið

Facebook
Twitter

 

Magnús Magnússon ÍR var rétt fyrir stundu að tryggja sér sæti í 24. úrslitum á heimsbikarmóti einstaklinga QubicaAMF mótinu í fyrsta sinn. Magnús var í 16. sæti fyrir daginn í dag og þurfti að halda meðaltali sínu í mótinu, eða yfir 211 meðaltali til að tryggja sig áfram í keppninni. Hann spilaði í síðasta holli forkeppninnar og með glæsilegri spilamennsku í fyrstu leikjunum og fjórum leikjum yfir 200 í keppni kvöldsins, gerði hann þó gott betur, stóðst pressuna og spilaði sig upp í 10. sætið. Leikir hans  í dag voru 228, 261, 244, 216 og 190 og samtals 1.139 eða 227,8 að meðaltali. Samtals spilaði Magnús 4.311 pinna í forkeppninni eða 215,6 að meðaltali í 20 leikjum.

Guðný Gunnarsdóttir sem átti ágætan dag í gær, náði ekki að fylgja því eftir í dag. Hún lauk keppninni í dag með því að spila 885 eða 177 að meðaltali í 5 leikjum og endaði í 52. sæti með samtals 3.584 pinna eða 179,2 að meðaltali í leik í 20 leikjum.

Eftir forkeppnina er Shanya Ng frá Singapore efst í kvennaflokki með 4.659 pinna, eða 233 að meðaltali í 20 leikjum. Önnur er Kirsten Penny Englandi með 4.560 pinna eða 228 og þriðja er  Aumi Guerra frá Dóminíkanska lýðveldinu með 4.510 pinna og  225,5 að meðaltali. Síðust inn i 24. manna úrslitin í kvennaflokki var Blanka Hanusikova fra Tékklandi sem komst inn á 3.913 pinnum eða 195,7 að meðaltali, en einum pinna á eftir henni og í 25. sæti var Martha Karatzoula frá Grikklandi.

Eftir forkeppnina er Marshall Kent Bandaríkjunum efstur í karlaflokki með 4.667 pinna eða 233,4 meðaltali í 20 leikjum. Á eftir honum kemur Hareb Al Mansoori frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum með 4.576 pinna eða 228,8 og þriðji er Mykhalo Kalika frá Úkraínu með 4.551 pinna eða 227,6. Síðastur inn í úrslitin og Í 24. sæti var Sergey Andreev frá Rússlandi með 208,9 í meðaltal, en 11 pinnum á eftir honum og missti því af sæti í úrslitum, var Adam Schrubb Gíbraltar.

Á morgun, föstudaginn 30. nóvember hefst keppni í 24. manna úrslitum kvenna kl. 8:00, en keppni í 24. manna úrslitum karla hefst kl. 13:15.

Sjá nánar heimasíðu mótsins http://www.qubicaamf.com/World-Cup/2012-Wroclaw-Poland.aspx

og Facebook síðuna https://www.facebook.com/QubicaAMFWorldCup

 

Nýjustu fréttirnar