Staðan í 1. deild kvenna

Facebook
Twitter

Keppnin er hörð í toppbaráttunni í 1. deild kvenna og að loknum fjórum umferðum er staðan þannig að með 19 – 1 sigri sínum á ÍR-N á heimavelli í Egilshöllinni tóku KFR-Valkyrjur efsta sætið með 65 stig. KFR-Afturgöngurnar, sem máttu hins vegar sætta sig við 17 – 3 tap á móti ÍR-TT á heimavelli í Öskjuhlíðinni, eru í öðru sæti með 56 stig. ÍR-BK sem vann KFR-Skutlurnar á heimavelli í Öskjuhlíð 14 – 6 er í þriðja sæti með 54 stig. 

ÍR-Buff sem vann ÍR-KK einnig 14 – 6 á útivelli í Öskjuhlíð, er í fjórða sæti með 47 stig, einu stigi meira en ÍR-TT sem eru í fimmta sæti. ÍFH-DK vann síðan ÍA á heimavelli í Öskjuhlíðinni 16 – 4.

Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR-TT spilaði best allra í þessari umferð og var með hæstan leik 221 og hæstu seríu 611.

Elín Óskarsdóttir KFR-Valkyrjum er enn með hæsta meðaltal deildarinnar 201,8 að meðaltali í leik. Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR-TT kemur næst með 184,3 og Ástrós Pétursdóttir ÍR-Buff er þriðja með 175,3 að meðaltali.

Nokkrar breytingar hafa orðið á liðskipan kvennaliðanna síðan í vor. Elín Óskarsdóttir er nú komin aftur í KFR-Valkyrjur, en hún hefur spilað með KFR-Skutlunum síðustu árin. Ólafía Sigurbjörnsdóttir sem einnig var í Skutlunum hefur skipti yfir til ÍA, en Þórunn S. Jónsdóttir er nýliði með KFR-Skutlunum. Systurnar Jóna Kristbjörg og Dagný Edda Þórisdætur spiluðu sína fyrstu leiki með KFR-Valkyrjum í vetur í þessari umferð. Jóna var að spila í deildinni eftir nokkurra ára hlé, en hún er búsett í Svíþjóð. Dagný snéri hins vegar aftur að loknu stuttu barneignarleyfi í sumar. Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR-TT spilaði einnig fyrstu leiki sína í deildinni í vetur, en hún hefur verið frá keppni síðustu vikurnar eftir aðgerð á hné vegna meiðsla sem hún hlaut í keppni með landsliðinu í sumar.

Sjá nánar

Nýjustu fréttirnar